Innlent

Jakar gengu yfir þjóðveginn við Klaustur

Ryðja þurfti ís af þjóðveginum við Kirkjubæjarklaustur í morgun eftir að Skaftá flæddi yfir bakka sína. Hlýtt var á svæðinu í gær og hlánaði með þeim afleiðingum að hækkaði í ánni og íshella brotnaði. Mikill ís barst niður ána og stíflaði rennsli undir Skaftárbrú með þeim afleiðingum að jakarnir gengu yfir veginn og ruddu meðal annars niður umferðarskilti.

Að sögn Guðmunds Inga Ingasonar varðstjóra hjá lögreglunni á Hvolsvelli muna elstu menn ekki annað eins. Vatn og klaki umkringdu hesthús sunnan megin við þjóðveginn, en búið er að bjarga hrossunum út úr þeim. Þá var fjörtíu sentimetra djúpt vatn í kjallara skólahússins á Klaustri, og fór miðstöðvarbrennari hússins á kaf í vatnið. Ekki er vitað um aðrar skemmdir á mannvirkjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×