Innlent

Síðustu vaktinni lauk með hnefahöggi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Stefán skömmu áður en Ágúst Fylkisson kýldi hann.
Stefán skömmu áður en Ágúst Fylkisson kýldi hann. MYYND/Stöð 2

Lögregluneminn sem Ágúst Fylkisson kýldi á Kirkjusandi á fimmtudaginn var hefur enn ekki náð sér að fullu af meiðslum sínum. Hann býst við því að verða frá vinnu í hálfan mánuð til viðbótar. Hann var á sinni síðustu vakt í starfsnámi í Reykjavík þegar hann varð fyrir árásinni en fram að því hafði hann ekki lent í ryskingum.

„Hún er bara mjög slæm,"segir lögregluneminn Stefán, aðspurður um heilsu sína. „Ég er mjög stífur í hálsinum og get varla hreyft mig. Svo er nefið skakkt." Árásin var kærð, rannsókn stendur yfir og von er á ákæru á næstu dögum. Læknir sem skoðaði Stefán sagði honum að hann væri illa tognaður á hálsi auk þess sem nefið er brotið.

Stefán er nemi í lögregluskólanum og hafði verið í starfsnámi hjá lögreglunni í Reykjavík um skeið. Hann var á sínustu vakt þennan daginn. „Fram að þessu hafði ég ekki lent í neinum átökum," segir hann.

Hann segir að árásin dragi engan veginn úr áhuga hans á löggæslustörfum. „Þvert á móti. Ég mæti bara öflugri til leiks." Næstu skref hjá Stefáni eru að hefja starfsnám hjá lögreglunni á Akureyri en þaðan er hann ættaður. „Ég býst þó við að vera frá vinnu í hálfan mánuð út af þessu og ég þarf ábyggilega að ganga til sjúkraþjálfara."

Stefán segist lítið muna eftir atburðarrásinni eftir höggið. „Þetta var fast enda sést á myndbandi af árásinni að húfan fauk lengst af mér. Ég held að ég hafi hálf rotast við höggið því ég man lítið hvað gerðist í framhaldinu. Þegar ég náði loksins að standa upp var ég þvílíkt ringlaður," segir Stefán og bætir við að samstarfsfólk hafi staðið sig afar vel. „Þau stóðu sig mjög vel og ég er þakklátur fyrir það."Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.