Innlent

Kostar 15 þúsund að geyma sæði á ári

Tók við geymslu sæðisfrumna af Landspítalanum fyrir fjórum árum.
Tók við geymslu sæðisfrumna af Landspítalanum fyrir fjórum árum.

„Þetta gjald hefur ekkert að gera með kreppuna nema síður sé. Það hittist bara þannig á að fyrst núna gefst okkur færi á að fara að taka til í okkar ranni, fara yfir allt sem við erum að geyma og greiða úr þessu," segir Guðmundur Arason, læknir hjá tæknifrjóvgunarstöðinni Art Medica í Kópavogi. Stöðin hefur nýlega hafið að rukka menn sem geyma hjá þeim sæðisfrumur um 15.000 krónur á ári. Ekkert gjald hefur verið tekið fyrir þjónustuna síðan Art Medica tók við henni af Landspítalanum fyrir fjórum árum, þar til nú fyrir skemmstu.

Guðmundur segir töluverðan kostnað og umstang fylgja geymslu á sæðisfrumum, en þær eru geymdar í fljótandi köfnunarefni. „Ástæða þess að við höfum ekki rukkað fyrr en nú er einfaldlega sú að nú höfum við tíma og mannskap til að greiða úr allri pappírsvinnunni sem fylgir. Þetta hleðst hratt upp. Upp úr dúrnum hefur komið að margir sem við höfum sent rukkun upp á síðkastið hafa þegar eignast barn og þurfa ekki að geyma sæðisfrumur lengur. Við rukkum ekki aftur í tímann."

Að sögn Guðmundar geyma nokkrir tugir manna sæðisfrumur hjá Art Medica. „Flestir sem geyma sæði eru á leiðinni í krabbameinsmeðferð sem felur í sér lyfjagjöf sem gæti stofnað frumunum í hættu," segir Guðmundur Arason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×