Lífið

Lyfjafræðingurinn fékk Útilegukortið

Kristín með Útilegukortið
Kristín með Útilegukortið

Kristín Laufey Steinadóttir er 28 ára lyfjafræðingur sem Vísir sagði frá í síðustu viku. Hún ætlaði í útilegu með vinkonum sínum en fékk ekki að tjalda á tjaldstæðinu að Laugaási í Biskupstungum. Ástæðan var sú að tjaldstæðið væri fyrir fjölskyldufólk með börn. Nú hefur Kristín Laufey fengið Útilegukortið að gjöf en það gildir á 30 tjaldstæði víðsvegar um landið.

„Við vildum gleðja þessa stúlku sem lenti í þessum hremmingum og hittum hana í gær og gáfum henni kort. Hún var himinlifandi og þakkaði okkur fyrir," segir Jóhann Ágúst Sigurðarson framkvæmdarstjóri Útilegukortsins.

Útilegukortið hefur vakið þónokkra athygli en það kom fyrst út árið 2006. Það gildir á 30 tjaldsvæðum víðsvegar um landið eins lengi og tjaldsvæðin eru opin. Kortið veitir eiganda þess, maka og fjórum börnum undir 16 ára aldri fría gistingu og engin takmörk eru fyrir því hve oft má koma á hvert tjaldsvæði.

Jóhann segir að þeim hjá Útilegukortinu hafi blöskrað hvernig komið var fram við stelpurnar á tjaldstæðinu.

Útilegukortið virkar þannig að búið er að greiða fyrirfram fyrir gistinguna og því er erfitt að vísa fólki af tjaldstæðum.

Kortið er hægt að fá hjá Útilegukortinu og kostar það 12.900 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.