Innlent

Segir nýja fjárlagafrumvarpið djarft

Valgerður Sverrisdóttir
Valgerður Sverrisdóttir

Valgerður Sverrisdóttir formaður framsóknarflokksins segir nýtt fjárlagafrumvarp ríkissjórnarinnar vera djarft. Hún segir greinilegt að eitthvað meira sé í pípunum og nefnir orðróm um að fara eigi inn í búvörulögin og lækka laun bænda. Hún segir alvarlegast að verið sé að auka álögur á launafólk.

„Það sem er hinsvegar hvað allra mest gagnrýnisvert er að þarna er ekki verið að leggja áherslu á atvinnulífið. Það er ekki verið að halda uppi atvinnu í landinu sem er gríðarlega mikilvægt við þessar aðstæður. Verið er að skerða opinberar framkvæmdir um 11 milljarða, og þar af er helmingurinn í samgöngum sem eru óskaplega mikilvægt byggðamál," segir Valgerður.

Valgerður segist gera sér fulla grein fyrir því að Ríkisstjórnin standi frammi fyrir miklum erfiðleikum í ríkisrekstri. „En ég minni á að fyrir ári síðan þegar verið var að vinna að fjárlögum þessa árs þá voru þau þanin út og hækkuð um tæp 20% frá árinu áður. Það sýnir að þegar Samfylkingin komst að kjötkötlunum var bara hugsað um að eyða og það var algjör skortur á aðhaldi."

Hún segir dapurlegt að horfa á þessar tillögur en vonar að hægt sé að treysta því að staðinn verði vörður um tekjulægstu hópanna.

„Ég verð líka að taka það fram að nú er talað um að mest sé skorið niður í utanríkisþjónustu. En þá er verið að miða við fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram 1.október en ekki síðasta árs. Þá varð gríðarleg hækkun í fjárlagafrumvarpinu og það er verið að draga það tilbaka en ekki verið að draga saman samanborið við síðasta ár," segir Valgerður að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×