Innlent

Sakfelld fyrir skemmdarverk í sumarhúsi

Karl og kona hafa verið dæmd í fangelsi eftir að þau brutust inn í sumarhús, ældu í sófa og eyðilögðu parket.

Par búsett í Reykjavík hefur í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmt í 3ja og fimm mánaða fangelsi skilorðsbundið vegna ýmissa brota. Karlinn fékk 5 mánaði, konan þrjá.

Brot þeirra voru mörg og misjöfn og fólust meðal annars í áfengisstuldi úr verslun ÁTVR á Akureyri, húsbrotum og eignaspjöllum. Um miðjan síðasta mánuð braust parið inn í sumarbústaðinn Lönguklöpp í landi Halllands í Svalbarðsstrandarhreppi og settist þar að um tíma með vondum afleiðingum fyrir eiganda.

Þar fundu þau þrjár áfengisflöskur og drukku allar og unnu spjöll á húsinu. Þau létu vatn renna óhindrað út á parketgólf bústaðarins úr baðherberginu, en niðurfall baðherbergisins var stíflað, og ældu í sófa án þess að hreinsa æluna upp, segir í dómskjölum. Þá stal parið fjórhjóli á Akureyri og ók því próflaust uns lögregla stöðvaði för þess.

Ýmis fleiri brot framdi parið í Reykjavík og vildi vera fínt í tauinu á meðan. Þannig stal fólkið Armani-leðurjakka að andvirði 160 þúsund krónur í verslun Sævars Karls í Bankastræti.

Hafa þau sýnt talsverðan brotavilja, segir Þorsteinn Davíðsson, en hann dæmdi í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×