Innlent

Vítisengill íhugar skaðabótamál gegn íslenska ríkinu

Þessum meðlimi Vítisengla var vísað úr landi í Leifsstöð
Þessum meðlimi Vítisengla var vísað úr landi í Leifsstöð MYND/Vísir

Einn meðlima vélhjólagengisins Hells Angels sem vísað var frá landi í byrjun nóvember á síðasta ári íhugar skaðabótamál gegn íslenska ríkinu. Nokkur hópur manna úr Hells Angels, eða Vítisenglum, ætluðu að sækja veisluhöld á vegum vélahjólaklúbbsins Fáfnis en var vísað frá landi við komuna í Leifsstöð.

Hópurinn kom hingað til lands í byrjun nóvember með tveimur flugum frá Osló í Noregi. Fáfnismenn voru mættir til þess að taka á móti félögum sínum sem síðan fengu ekki að koma inn í landið.

Að sögn Oddgeirs Einarssonar lögmanns eins mannanna hefur dómsmálaráðuneytið staðfest úrskurð Útlendingastofnunar um að vísa einum þeirra frá landi. Hann segir engin gögn til stuðnings þessu frekar en hjá Útlendingastofnun annað en áhættumat lögreglunnar.

„Staðreyndirnar í málinu eru hinsvegar þær að manninum sem vísað var frá landi er miðaldra flugmaður, algerlega án sakaferils og tilheyrir löglegum samtökum í Noregi með lögmætan tilgang sem aldrei hafa verið dæmd fyrir þátttöku í eða skipulagningu á afbrotum," segir Oddgeir.

„Hann hafði enga fyrirætlan um að taka upp á því að fremja sitt fyrsta afbrot hér á landi né gera neitt sem stuðlað gæti að afbrotum," segir Oddgeir og nefnir að nú séu tveir möguleikar í stöðunni.

Annaðhvort að fara í skaðabótamál gegn ríkinu vegna ólögmætrar brottvísunar eða senda málið til Umboðsmanns Alþingis varðandi stjórnsýsluna.


Tengdar fréttir

Tíu til tólf handteknir til viðbótar

Tíu til tólf karlmenn voru handteknir á Keflavíkurflugvelli nú í kvöld þegar seinni vélin frá Osló lenti klukkan 18.26. Þeir eru grunaðir um að vera meðlimir í mótorhjólasamtökunum Hells' Angels og samkvæmt heimildum Vísis voru nokkrir þeirra í leðurvestum merktum samtökunum. Von er á fleiri vítisenglum í kvöld þegar vélin frá Kaupmannahöfn lendir klukkan tíu.

Sjö vítisenglum synjað um leyfi til landgöngu

Íslensk lögregluyfirvöld synjuðu sjö norrænum félögum í vélhjólasamtökunum Hell’s Angels um leyfi til landgöngu við komu þeirra til landsins í dag. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að fólkið, sem kom hingað til lands með tveimur vélum frá Noregi, hafi ætlað að sækja veislu, sem vélhjólaklúbburinn Fafner MC-Iceland hefur boðað til í miðborg Reykjavíkur um helgina.

Lögmaður Vítisengla hefur enn ekki hitt þá

Oddgeir Einarsson, lögmaður tveggja vítisengla sem handteknir voru í Leifsstöð fyrr í dag hefur enn ekki fengið að hitta skjólstæðinga sína. Hann hefur engar upplýsingar fengið um málið og er farinn aftur til Reykjavíkur. Hann segir að ef svo fari að mönnunum verði vísað úr landi án þess að fá aðstoð lögfræðings væri það magnað.

Vítisengill í Leifsstöð með morðingjamerki á vestinu

Annar Vítisengillinn sem var hér á landi í vor og Vísir sagði frá í gær var á meðal þeirra sem reyndu að komast inn í landið á föstudaginn var. Hann hefur nú öðlast full réttindi innan samtakanna auk þess sem hann skartar merki sem þýðir að hann hafi myrt í þágu félaga sinna.

Lögmaður fær ekki að hitta Vítisengla

Oddgeir Einarsson, lögmaður norsku Vítisenglanna sem nú eru í haldi lögreglu á Leifsstöð, fær ekki að hitta skjólstæðinga sína. Hann yfirgaf flugstöðina rétt í þessu en er væntanlegur aftur innan skamms.

Hert landamæraeftirlit á Leifsstöð vegna Hells Angels

Gripið var til herts landamæraeftirlits í Leifsstöð síðdegis í gær, að skipan dómsmálaráðherra, og stendur það fram á sunnudagskvöld. Hlutaðeigandi Shengen ríkjum hefur verið gert viðvart um þessa ráðstöfun í þágu þjóðaröryggis.

Eins og að Osama Bin Laden sé að koma til landsins

Gríðarlegur viðbúnaður er á Leifsstöð þessa stundina vegna komu félaga úr Hells Angels í Noregi hingað til lands. Vísir er á staðnum og hefur rætt við fólk sem er að koma úr flugstöðinni. Einn þeirra skaut á að um 70 lögreglumenn biði komu norsku Hells Angels mannanna. Annar hafði það á orði að ástandið í flugstöðinni væri líkt og Osama Bin Laden væri væntanlegur til landsins.

Lögreglan með aðgerðir vegna komu Hell´s Angels

Íslensk lögregluyfirvöld hafa undirbúið aðgerðir vegna komu norrænna félaga í vélhjólasamtökunum Hell's Angels til landsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra. Þar segir að að Ríkislögreglustjóri fari með yfirumsjón aðgerðarinnar en lögreglarn á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu hefur umsjón með framkvæmd einstakra þátta aðgerðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×