Innlent

Sjö vítisenglum synjað um leyfi til landgöngu

Vítisenglarnir ætluðu að samfagna með félögum sínum í Fáfni sem fagnar ellefu ára afmæli sínu um þessar mundir.
Vítisenglarnir ætluðu að samfagna með félögum sínum í Fáfni sem fagnar ellefu ára afmæli sínu um þessar mundir. MYND/Rósa
Íslensk lögregluyfirvöld synjuðu sjö norrænum félögum í vélhjólasamtökunum Hell's Angels um leyfi til landgöngu við komu þeirra til landsins í dag. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að fólkið, sem kom hingað til lands með tveimur vélum frá Noregi, hafi ætlað að sækja veislu, sem vélhjólaklúbburinn Fafner MC-Iceland hefur boðað til í miðborg Reykjavíkur um helgina.

 

 

Heimildir Vísis frá því fyrr í kvöld um að allt að fimmtán vítisenglar hafi verið handteknir við komuna til landsins virðast því ekki hafa verið á rökum reistar, heldur hafi þeir verið sjö.

 

 

Í tilkynningunni segir einnig að lögregla hafi fylgt settum reglum þegar fólkinu var synjað um landvist. „Leiðbeiningarskyldu skv. 25. gr. laga um útlendinga nr. 96, 2002 um heimildir viðkomandi til að leita sér aðstoðar lögmanns hefur verið gætt, en umræddir aðilar hafa til þessa kosið að nýta sér ekki þann rétt."

 

 

Þá segir að aðgerðum lögreglu sé ekki lokið. „Fylgst verður með komuflugi til landsins um helgina sem og fyrirhuguðu samkvæmi Fafner-MC Iceland." Það er embætti ríkislögreglustjóra sem fer með yfirstjórn aðgerðarinnar, sem er viðamikil, að sögn.

 

 

Framkvæmd aðgerðarinnar til þessa hefur verið í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjórans taka einnig þátt í henni.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×