Erlent

Fjórir í haldi vegna ránsins á Oliver

Fernt er nú í haldi lögreglunnar í Helsingör eftir að öryggislögreglu landsins tókst að leysa úr haldi hinn fimm ára gamla Oliver í gær.

Oliver fannst bundinn og keflaður í herbergi á Rebæk Söpark stúdentagörðunum í Hvidovre en þar búa um 350 stúdentar, margir þeirra af kínverskum ættum. Lögreglan verst allra frétta af málinu og talið er að hún sé að leita fleiri manns sem séu vitorðsmenn mannræningjana.

Foreldrar Olivers eru sterkefnaðir Kínverjar sem eiga nokkur veitingahús í Kaupmannahöfn. Mannræningjarnir höfðu samband við þá seint í fyrrakvöld og kröfðust hárrar upphæðar í lausnargjald fyrir Oliver. Talið er að þetta símtal hafi komið lögreglunni á sporið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×