Erlent

Bregðast við kreppunni með skattahækkunum og -lækkunum

MYND/AP

Bresk stjórnvöld hyggjast hækka hátekjuskatt en lækka virðisaukaskatt í viðleitni sinni til að bregðast við yfirstandandi fjármálakreppu.

Bretar þurfa að taka tuga milljarða punda lán á næstu árum til þess að bregðast við kreppunni og örva einkaneyslu. Fram kemur á fréttavef BBC að virðisaukaskattur verði lækkaður úr 17,5 prósentum í 15 prósent og þá verða tilteknar skattaendurgreiðslur framlengdar.

Til þess að standa undir auknum lántökum stendur svo til að hækka hátekjuskatt um fimm prósentustig, í 45 prósent, eftir næstu kosningar haldi Verkamannaflokkurinn völdum. Nær þetta til þeirra sem eru með yfir 150 þúsund pund á ári í laun.

Reiknað er með að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, kynni þessi áform stjórnvalda eftir hádegið ásamt því að fara yfir hvernig lán stjórnvalda verði endurgreidd á næstu árum.

Gordon Brown forsætisráðherra sagði í ræðu hjá Samtökum iðnaðarins í Bretlandi í morgun að stjórnvöld yrðu að bregðast hratt við breyttum aðstæðum. Koma þyrfti í veg fyrir gjaldþrot góðra fyrirtækja sem hefði í för með sér minni hagvöxt, erfiðari fjárlagagerð og hugsanlega hærri skatta. Hann vildi ekki endurtaka mistök fyrri ríkisstjórna sem ekki hefðu gripið til aðgerða gegn niðursveiflu í tæka tíð og því lengt og dýpkað kreppurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×