Innlent

Pólverjinn lá í þrettán tíma án hjálpar

Pólverjinn sem lést á Landspítalanum í síðustu viku vegna höfuðáverka, lá í rúmi sínu í þrettán tíma þangað til að hann var fluttur á sjúkrahús. Hann féll í götuna fyrir utan Frakkastíg 8 mánudagskvöldið 9. júní og herma heimildir Vísis að fallið hafi verið hátt, nokkrir metrar. Viku seinna var slökkt á öndunarvélinni og maðurinn, sem var þrítugur að aldri, úrskurðaður látinn.

Vinur Pólverjans og meðleigjandi að tveggja manna herbergi á fjórðu hæð á Frakkastígnum kom að honum á götunni og setti hann í rúmið. Það var ekki fyrr en þrettán tímum seinna sem lögregla og sjúkralið var kallað á staðinn.

Maðurinn, sem setið hefur í gæsluvarðhaldi undanfarna tíu daga vegna málsins, bjó tveimur herbergjum frá hinum látna. Hann hefur dvalið hér á landi í fjóra mánuði. Gæsluvarðhaldið rann út í dag og samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni verður óskað eftir farbanni yfir manninum. Eins og Vísir greindi fyrst frá í morgun er málið rannsakað sem mögulegt mannsdráp.

Allir þrír hafa unnið hjá fyrirtækinu HB Innflutningur sem leigir mönnunum húsnæði á Frakkastígnum. Sveinn Ingvar Hilmarsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vildi ekkert tjá sig um málið þegar Vísir ræddi við hann í dag.

Vatn og Land, félag í eigu feðganna Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, á húsið en Þorsteinn Steingrímsson, forsvarsmaður þess, sagðist ekkert þekkja til málsins enda hefði húsið verið í útleigu til HB Innflutnings í mörg ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×