Innlent

Þrennt handtekið vegna gruns um þjófnað úr hraðbönkum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið þrjá Rúmena, tvo karla og eina konu, vegna gruns um að þjófnað úr hraðbönkum á höfuðborgarsvæðinu fyrir síðustu helgi.

Hundruðum þúsunda var þá stolið og er talið að gerningsmennirnir hafi notast við stolin eða fölsuð erlend greiðslukort. Að sögn Ómars Smára Ármannssonar hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar var fólkið handtekið í gær eftir nokkra leit og lagði lögregla hald á fjármuni, kort og ýmis önnur gögn sem voru í fórum fólksins. Alls var á þriðja hundrað korta í fórum fólksins en þau voru með greiðslukortaupplýsingum sem talið er að aflað hafi verið með ólögmætum hætti af kortum grunlausra kortanotenda erlendis.

„Við slíka iðju er oftar en ekki notaður búnaður sem komið er fyrir á eða í grennd við hraðbanka eða annars staðar þar sem tekið er við greiðslukortum. Sambærilegur njósnabúnaður fannst hér á landi síðla árs 2006 í tengslum við handtöku tveggja Rúmena. Áður hafði fundist búnaður í fórum manns sem var að koma hingað til lands með Norrænu," segir í tilkynningu lögreglunnar.

Fólkið verður yfirheyrt í dag og í framhaldinu verður metið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir því. Rannsókn málsins er á frumstigi og hún beinist m.a. að því hvort hugsanleg tengsl geti verið við sambærilegt mál sem kom upp um síðastliðna páska. Þá voru tveir Rúmenar handteknir en talið er að þeir hafi tilheyrt hópi sem kom gagngert hingað til lands í sömu erindagjörðum.

Fólkið er á þrítugs- og fertugsaldri og var handtekið seinni partinn í gær. Meðal annars var haft upp einhverjum þeirra á hóteli.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×