Innlent

Reyna að endurheimta hluta af verðmætum sem hafa tapast

Forsvarsmenn nokkurra af stærri lífeyrissjóðum landsins hafa sent stjórnvöldum bréf þar sem óskað er eftir formlegum viðræðum um kaup á innlendri starfsemi Kaupþings. Þetta var ákveðið eftir fundi forsvarsmanna lífeyrissjóðanna í gærkvöldi og morgun.

 

 

Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, staðfesti í samtali við Vísi að sjóðurinn ásamt nokkrum öðrum hefði samþykkt að óska eftir viðræðunum. Hann segir að gert sé ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir muni eiga að minnsta kosti 51 prósents hlut í hinum nýja banka en aðrir hluthafar komi einnig að honum. „Lífeyrissjóðirnir hafa ekki farið varhluta af þeim erfiðleikum sem verið hafa á fjármálamarkaði. Með því að kaupa hlut í bankanum viljum við reyna að endurheimta hluta af þeim verðmætum sem hafa tapast," segir Haukur, en lífeyrissjóðirnir voru meðal stærstu hluthafa Kaupþings fyrir fall bankans í síðustu viku.

 

 

Aðspurður segir Haukur lífeyrissjóðina ekki hafa sett stjórnvöldum neinn tímafrest varðandi viðræðurnar en þó sé ljóst að málið þurfi að vinnast tiltölulega hratt. Hann bendir þó á að ef stjórnvöld fallist á viðræðurnar sé talsverð vinna eftir, meðal annars í að meta einstaka hluti bankans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×