Innlent

Matvælaverð geti lækkað um allt að fjórðung með inngöngu í ESB

Talið er að matvælaverð getið lækkað um allt að fjórðung hér á landi ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið. Þetta sýnir rannsókn á vegum Evrópufræðasetursins við Háskólann við Bifröst sem unnin var fyrir Neytendasamtökin.

Fram kemur á heimasíðu Neytendasamtakanna að skoðaðir hafi verið kostir og gallar inngöngu og þeir metnir út frá hagsmunum íslenskra neytenda. Meðal niðurstaðna skýrslunnar eru að tollar á milli Íslands og ESB féllu niður, vextir af íbúðalánum myndu lækka töluvert og sömuleiðis viðskiptakostnaður.

Þá megi ætla að með aðild myndu viðskipti og fjárfestingar erlendra aðila aukast hér á landi og þar með yrði samkeppnin meiri. Þá gætu Íslendingar geta sótt í ýmsa sjóði sem ekki er mögulegt í dag. Þar má nefna styrki til landbúnaðar og til byggðamála.

Neytendasamtökin taka fram að þau séu með þessu ekki að taka afstöðu til þess hvort Íslendingar eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. „Neytendasamtökin vilja hins vegar leggja sitt að mörkum til að fram fari opinská og málefnaleg umræða um kosti og galla slíkrar aðildar og er skýrslan framlag samtakanna til þeirrar umræðu," segja Neytendasamtökin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×