Innlent

Efast um hæfi sveitarstjórnar í Bitruvirkjunarmáli

Landvernd hefur efasemdir um hæfi sveitarstjórnar Ölfuss til þess að fjalla um breytingar á skipulagi sveitarfélagsins í tengslum við byggingu Bitruvirkjunar. Þetta kemur fram í athugasemd sem samtökin hafa sent Sveitarfélaginu Ölfusi vegna málsins. Síðasti dagur til þess að skila inn athugasemdum um auglýsingu á breyttu aðalskipulagi er í dag.

Í athugasemdum Landverndar kemur meðal annars fram að samtökin leggist alfarið gegn fyrirhugaðri virkjun enda sé gert ráð fyrir að 285 hektara opnu svæði á Bitru og Ölkelduhálsi verði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.

Samtökin hafi kynnt framtíðarsýn um eldfjallagarð og fólkvang frá Þingvallavatni vestur um Reykjanesskagann og út í Eldey og sú framtíðarsýn grundvallist á náttúruvernd, útivist og ferðaþjónustu auk vinnslu á jarðhita og jarðhitaefnum. „Í framtíðarsýn Landverndar er lagt til að orkuvinnsla fari fyrst og fremst fram á þeim svæðum sem þegar hefur verið raskað vegna slíkrar vinnslu og nýta mætti betur," segir í bréfi Landverndar til Sveitarfélagsins Ölfuss. Um sé að ræða dýrmætt útivistarsvæði í nánasta nágrenni við helsta þéttbýli landsins sem er að hluta til á náttúruminjaskrá.

Þá segja forsvarsmenn Landverndar að þeir hafi efasemdir um hæfi sveitarstjórnar Ölfuss í málinu. Sveitarfélagið hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru" svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar 28. apríl 2006.

Segja samtökin að ekki fáist því betur séð en að sveitarstjórn hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl, afsalað sér sjálfræði til ákvörðunar í skipulagsmálinu. Að þessu beri sveitarstjórn að huga og eftir atvikum lýsa yfir vanhæfi sínu.

Fyrr í dag kom fram að Hveragerðisbær legðist alfarið gegn Bitruvirkjun vegna þeirra áhrifa sem hún hefur á bæinn og nágrenni hans.


Tengdar fréttir

Áskilja sér allan rétt verði af Bitruvirkjun

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti aukafundi í morgun harðorða bókun gegn Bitruvirkjun sem rísa á í nágrenni bæjarins. Þar áskilja forsvarsmenn bæjarins sér allan rétt til aðgerða verði af virkjuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×