Íslenski boltinn

Gunnleifur Gunnleifsson í HK

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnleifur Gunnleifsson eldri.
Gunnleifur Gunnleifsson eldri.
Það er vitanlega alkunna að Gunnleifur Gunnleifsson er á mála hjá HK - en nú eru þeir orðnir tveir.

Gunnleifur eldri er markvörður og fyrirliði HK en hann eignaðist son nú fyrr á árinu sem var um helgina skírður Gunnleifur Orri.

„Eftir því sem ég best veit var ég einn eftir sem heitir þessu nafni eftir að pabbi minn dó í fyrra. En nú erum við tveir," sagði Gunnleifur í samtali við Vísi og sagði að hann væri að sjálfsögðu búinn að skrá son sinn í félagið.

„Ég bind vonir við að eftir 17-18 ár muni hann taka við fyrirliðabandinu hjá HK," sagði hann í léttum dúr.

Gunnleifur á fyrir tvær dætur sem þykja efnilegir knattspyrnumenn. „Sú eldri, Signý María, býr í Mosfellsbæ með mömmu sinni og hún þykir mjög efnilegur markvörður hjá Aftureldingu. Ester Ósk, sú yngri, verður annað hvort markvörður eða sóknarmaður þar sem mamma hennar er nú gamall framherji."

Hann segir að það hefði verið snemma ljóst að fyrsti strákurinn fengi nafn föður síns. „Gestirnir í skírninni fengu kannski ekki áfall þegar nafið var kynnt," sagði hann og hló. „Ég hef alltaf verið mjög ánægður með nafnið mitt og finnst gott að geta viðhaldið hefðinni."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×