Innlent

Þorvaldur Gylfason krefur Skuggahverfi um milljónir

SB skrifar
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur. Tjónið á íbúð hans er metið á tólf milljónir.
Þorvaldur Gylfason hagfræðingur. Tjónið á íbúð hans er metið á tólf milljónir.

„Þetta er vegna galla á íbúð þeirra hjóna," segir Ragnar Aðalsteinsson lögmaður Þorvalds Gylfasonar og Önnu Karítasar Bjarnadóttur, eiginkonu hans. Aðalmeðferð í máli þeirra hjóna gegn 101 Skuggahverfi hf. fór fram í Héraðsdómi í gær.

„Matsmenn mátu kostnaðinn við að lagfæra íbúð þeirra á 12 milljónir," segir Ragnar. Hann útskýrir að gallarnir felist í gólfinu, rúðunum og hljóðvist.

„Ég veit um fjölda íbúða með hljóðvistarvandamál í húsinu og ég veit að fólk er að undirbúa kröfur," segir Ragnar, „...ég er þó bara lögfræðingur þeirra hjóna".

Skýjakljúfarnir blettóttu í Skuggahverfinu áttu að vera lúxusíbúðir fyrir nýja öld. Ytra byrði húsanna er þó mikið skemmt; flísar detta af þegar hvessir og Ragnar segir gluggana gallaða - logsoðið hafi verið utan á húsinu sem olli ryðblettum í rúðum.

Mál Þorvaldar tengist þó aðeins hans íbúð. Sjálfur vildi hann ekkert tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×