Innlent

Segir eftirlaunafrumvarpið ekki þurfa slímsetu í þingnefnd

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri - grænna, segir að eftirlaunafrumvarp Valgerðar Bjarnadóttur, varaþingmanns Samfylkingarinnar, þurfi ekki neina slímsetu í þingnefnd.

„Það er alveg kýrskýrt af minni hálfu að þetta frumvarp á að setja fram til umræðu og afgreiðslu strax svo það náist að samþykkja það fyrir þinglok," segir Ögmundur.

Ögmundur segir að málið snúist um þá einföldu staðreynd hvort þingmenn, ráðherrar og ýmsir æðstu embættismenn þjóðarinnar, sem lífeyrislögin alræmdu taki til, eigi að búa við sömu lífeyriskjör og aðrir starfsmenn ríkisins.

Einnig kemur fram í máli Ögmundar að búið sé að ræða málið í þaula og því þurfi ekki mikinn tíma til að koma því í gegnum þingið. Það að málinu sé enn haldið inn í allsherjarnefnd þingsins vekji grun um að ekki sé pólitískur vilji innan meirihlutans þar til að koma því áfram.

Þess má geta að 38 starfsdagar eru eftir af núverandi þingi, 28 fram á vor og tíu í haust. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur lýst því yfir að hún vilji reyna að ljúka málinu fyrir þinglok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×