Innlent

Ferðaþjónusta um fimm prósent af landsframleiðslu

MYND/GVA

Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu á árunum 2000-2006 reyndist 4,6 prósent að meðaltali samkvæmt ferðaþjónustureikningum sem Hagstofa Íslands birtir nú í fyrsta sinn.

Árið 2006 námu heildarkaup á ferðaþjónustu innanlands tæplega 135 milljörðum króna, eða sem svarar til 11,5 prósenta af landsframleiðslu. Kaupin skiptust þannig að kaup erlendra ferðamanna voru um 71 milljarður króna eða sex prósent af landsframleiðslu, neysla heimilanna var um 56 milljarðar eða tæp fimm prósent af landsframleiðslu og kaup fyrirtækja og opinberra aðila voru 8,2 milljarðar króna eða 0,7 prósent af landsframleiðslu.

 

Þegar nánar er rýnt í tölurnar kemur fram að af heildarneyslu ferðamanna hér á landi námu kaup á flugþjónustu um 50 milljörðum króna, eða 37 prósentum af heildarneyslu ferðamanna. Kaup ferðamanna á gisti- og veitingaþjónustu voru um 26 milljarðar króna eða um 19 prósent af heildarferðaneyslu innanlands og skiptist hún nánast til helminga milli þessara tveggja atvinnugreina.

Þjónusta ferðaskrifstofa við ferðamenn innanlands og á leið til annarra landa nam 7,7 milljörðum króna 2006 eða um sex prósentum af heildarneyslu á ferðaþjónustu. Sala á bensíni, viðgerðum og viðhaldi bifreiða nam 7,3 milljörðum króna og önnur þjónusta tengd farþegaflutningum 12,4 milljörðum króna. Útgjöld ferðamanna til menningar og afþreyingar námu 5,2 milljörðum króna árið 2006. Loks mælist hlutur ferðaþjónustu í verslun og ýmissi annarri starfsemi 16,7 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×