Innlent

Brown vill leysa deiluna við Íslendinga

Geir H. Haarde forsætisráðherra fékk í dag bréf frá Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þar sem hann lýsir vilja til þess að leysa deilur landanna vegna íslenskra banka í Bretlandi. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætisráðherra í Iðnó í dag.

Bréfinu var dreift til fréttamanna og þar kom fram að Brown hefði áhyggjur af deilunni og vegna sterks sambands Breta og Íslendinga væri mikilvægt að leysa þessa alvarlegu deilu. Deilan hófst á því að fregnir bárust af því almenningur og sveitarfélög hefðu tapað stórfé á bankareikningum í eigu íslenskra banka.

Geir sagði á fundinum að hann hefði fyrr í dag rætt við Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, um stöðu reikninga hjá íslenskum bönkum í Noregi. Það mál væri komið í mjög farsælan farveg og það væri til fyrirmyndar hvernig Norðmenn hefðu brugðist við því til bráðabirgða þar til endanleg lausn fengist.

Fundað með Bretum á morgun

Geir sagði að þótt einhverjar tafir hefðu orðið á greiðslumiðlun hefði hún í aðalatriðum gengið vel fyrir sig og Seðlabankinn væri með vakt á gjaldeyrisborði. Þá sagði Geir að fjármálaráðherra væri kominn til Bandaríkjanna þar sem hann myndi ræða við starfsbræður sína og fleiri aðila.

Geir fór í framhaldinu yfir deilu Íslendinga við Breta. Sagði hann íslensk stjórnvöld hafa leitast við að halda umræðunni á diplómatískum grundvelli og ekki hafa viljað skylmast í fjölmiðlum. Hann hefði ákveðið að svara ekki ásökunum Gordons Browns í fjölmiðlum í gær þar sem honum hefði sýnst að Brown hefði ekki haft upplýsingar um samtöl Geirs við Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands, um málið. Hann hefði átt mjög gott samtal við Darling. Áhersla yrði lögð á leysa vandaann hratt og örugglega á grundvelli góðrar og uppbyggilegra samræðna.

Þá sagði Geir að fulltrúar breska fjármálaeftirlitsins, fjármálaráðuneytisins, Englandsbanka og innistæðusjóðs kæmu hingað í kvöld og fundað yrði með þeim á morgun. Þá sagði hann að einnig væri von á sams konar hópi sérfræðinga frá Hollandi vegna reikninga þar.

Áskilja sér rétt til lögsóknar gegn Bretum

Geir sagði enn fremur að honum sýndist sem Gordon Brown hefði gengið alltof langt í yfirlýsingum sínum og alltof langt að halda því fram að Íslendingar væru þjóð sem væri komin í vanskil. Sagði Geir að enginn íslenskur ráðamaður hefði haldið því fram að íslensk stjórnvöld myndu ekki standa við skuldbindingar sínar. Varðandi hugsanleg dómsmál sagðist Geir ekkert hafa á móti þeim en íslensk stjórnvöld áskildu sér sama rétt kæmi það í ljós að bresk stjórnvöld hefðu ógnað íslenskum hagsmunum með yfirlýsingum sínum.

Forsætisráðherra sagði vikuna hafa verið ótrúlega og mikinn lærdóm fyrir alla þjóðina. „Við höfum lent hér í atburðarás sem ekkert okkar átti von á að yrði að veruleioka hér á Íslandi," sagði Geir. Margir myndu tapa miklu en vegna aðgerðanna nú myndum við sem þjóð koma styrk út úr ástandinu. Allar grunnstoðir væru í lagi og reynt yrði að aðstoða þá sem misstu störf sín með því að skapa ný störf.

Þetta var jafnframt síðasti fundurinn í Iðnó af þessu tagi að sögn forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×