Innlent

Frekari uppsagnir ekki fyrirhugaðar

Áttatíu og átta starfsmönnum Glitnis hér á landi hefur verið sagt upp störfum. Uppsögnin þýðir að hátt í tíu prósent af öllu starfsfólki fyrirtækisins á Íslandi missa vinnuna.

Af þeim áttatíu og átta sem misstu vinnuna fengu sextíu og fimm uppsagnarbréf í gær og í dag en hinir um síðustu mánaðarmót. Tilkynnt var um uppsagnirnar til Kauphallarinnar í dag en starfsmennirnir eru úr flestum deildum og sviðum bankans. Stöðugildum á öllum starfssvæðum Glitnis fækkað um rúmlega tvö hundruð og fimmtíu á árinu. Með þeim uppsögnum sem tilkynnt var um í dag verður starfsmannafjöldi fyrirtækisins um eittþúsund.

Forsvarsmenn bankans segja minni umsvif og verri aðstæður á fjármálamörkuðum leiða til þess að draga þarf úr kostnaði og aðlaga rekstur bankans við núverandi verkefnastöðu. Lárus Welding forstjóri Glitnis segir fyrirtækið þurfa að sníða stakk eftir vexti, aðgerðunum sé lokið nú og ekki frekari uppsagnir fyrirhugaðar.

Á síðasta ári voru ráðnir yfir þrjúhundruð starfsmenn til Glitnis á Íslandi sem er met í sögu bankans. Aðspurður um hvort að bankinn hafi farið of geyst segir Lárus að segja megi það. Allir hafi gert ráð fyrir meiri vexti og menn ekki séð fyrir þá fjármálaörðugleika sem átt hafa sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×