Innlent

Málflutningur í Baugsmálinu fyrir Hæstarétti klukkan átta

Málflutningur hefst nú klukkan átta í Hæstarétti í þeim anga Baugsmálsins sem enn er fyrir dómi.

Um er að ræða endurákæru sem settur saksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, gaf út eftir að upprunalega Baugsmálinu var öllu vísað frá dómstólum. Alls er um að ræða 18 ákæruliði.

Í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra var Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs, sýknaður af langflestum ákæruliðum en þó dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir aðild að útgáfu tilhæfulauss reiknings upp á 62 milljónir króna sem færður var í bækur Baugs.

Þá var Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri, dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir bókhaldsbrot og fjárdrátt með því að láta Baug greiða persónulegan kostnað sinn.

Enn fremur var Jón Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélagi Baugsmanna, dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að aðstoða Jón Ásgeir og Tryggva við að gefa út hinn tilhæfulausa reikning. Málflutningur verður í allan dag og sömuleiðis á morgun enda málið mikið að vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×