Innlent

Töldu fullvíst að Kjartan væri að tala um Davíð

Yfirlýsing Kjartans Gunnarssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, um að hann hafi í ræðu sinni á flokksráðsfundi í gær ekki gagnrýnt Davíð Oddsson kom fundargestum á óvart. Þeir töldu fullvíst að hann væri að tala um Davíð þegar hann frábað sér að vera kallaður óreiðumaður.

Við sögðum frá því í fréttum okkar í gær að dramatísk uppákoma hafi orðið á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær þegar Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins, stóð upp og frábað sér að vera kallaður óreiðumaður.

Kjartan stóð upp eftir fundinum var lokað fyrir fjölmiðlum. Heimildarmenn fréttastofu sem sátu fundinn töldu víst að að Kjartan væri með orðum sínum að vísa í ummæli Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra í Kastljósinu síðasta þriðjudag. Þar kallaði Davíð forsvarsmenn bankanna óreiðumenn en Kjartan sat í bankaráði Landsbankans þar til bankinn var þjóðnýttur í síðustu viku.

Fréttablaðið og fréttavefir Morgunblaðsins og DV sögðu einnig frá málinu í gær og túlkuðu heimildarmenn þeirra einnig orð Kjartans sem gagnrýni á Davíð. Í frétt Morgunblaðsins segir að þó Kjartan hafi ekki nefnt Davíð á nafn hafi fáum dulist hvert ummælunum var beint.

Kjartan hafði samband við fréttastofu í gær eftir að fréttin var birt og sagðist með orðum sínum ekki hafa átt við Davíð og lýsti yfir fullum stuðningi við hann. Hann kom þessari sömu athugasemd á framfæri við fréttavefi Morgunblaðsins og DV.

Heimildarmönnum fréttastofu sem sátu fundinn kemur yfirlýsing Kjartans á óvart. Þeir voru vissir um að Kjartan hefði átt við Davíð enda ekki vitað til þess að aðrir en hann hafi kallað forsvarsmenn bankanna óreiðumenn í umræðunni síðustu daga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×