Innlent

Þriggja prósenta atvinnuleysi í landinu

Úr myndasafni.
Úr myndasafni. MYND/Valgarður

Yfir 5200 manns eru nú atvinnulausir á Íslandi og hafa um 4400 misst vinnuna á árinu í hópuppsögnum. Vitnað er til þessara talna Vinnumálastofnunar í Morgunkorni Glitnis og sagt að langstærsti hluti hópuppsagna hafi komið í október eða tveir þriðju þeirra.

Þar er einnig bent á að atvinnuleysi sé því nú um þrjú prósent og að fjöldi atvinnulausra hafi tvöfaldast frá því í lok september. „Á síðustu þremur vikum hefur atvinnulausum fjölgað um 1.430 manns en þann 22. október síðastliðinn voru 3.821 skráðir atvinnulausir. Þetta kemur varla á óvart í ljósi efnahagsþróunarinnar og frétta af uppsögnum hjá fyrirtækjum. Reikna má með því að atvinnuleysi haldi áfram að aukast hratt á næstu mánuðum," segir í Morgunkorninu.

Þá er einnig bent á að starfandi útlendingum á vinnumarkaði hafi fækkað um 5-6 þúsund frá því um mitt ár og því sé ljóst að uppsagnir fyrirtækja á vinnuafli séu mun meiri en sjáist í atvinnuleysistölum. Sveigjanleiki hins íslenska vinnumarkaðar sé mikill og birtist meðal annars í þessu mikla útflæði vinnuafls eftir mikið innflæði vinnuafls á undanförnum árum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×