Lífið

Flug Gísla á borgarstjórnarfund mengar svipað og að keyra hringveginn tvisvar

sev skrifar
Sú ákvörðun Gísla Marteins Baldurssonar að starfa áfram sem borgarfulltrúi á meðan hann er við nám í Edinborg hefur vakið töluverða athygli. Ekki síst fyrir þær sakir að hann ætlar að fljúga heim tvisvar í mánuði til að sinna starfinu.

Gísli var, með hléi vegna meirihlutaskipta, formaður Umhverfis og Samgönguráðs Reykjavíkur þangað til að ákvörðunin um að fara í nám var tekin. Sem slíkur hefur Gísli verið duglegur að tala fyrir auknum hlut vistvænna samgangna. Við setningu samgönguviku í fyrra hvatti Gísli borgarbúa í viðtali Ríkisútvarpið til að „hugsa um það hvort að það sé ekki hægt að gera næsta ferðalag örlítið vistvænna, örlítið skemmtilegra, örlítið betra fyrir líkamann og velja þannig visthæfari samgöngur."

Það ku Gísli sjálfur einmitt hafa gert á meðan hann bjó í Vesturbænum, skottúr frá Ráðhúsinu. Menn hjóla hinsvegar ekki fjórtán hundruð kílómetra yfir sjó, og þarf Gísli því að reiða sig á farþegavélar til að komast í vinnuna frá Skotlandi.

Samkvæmt lauslegum útreikningum á netinu losar slík flugferð fram og til baka frá Glasgow um 320 kíló af koltvísýringi á farþega. Til samanburðar má hæglega finna umhverfisvæna smábíla sem eyða 120 g af koltvísýringi á kílómeter. Á slíkum bíl þyrfti Gísli að keyra hringveginn tæplega tvisvar til að losa jafn mikinn koltvísýring og hann gerir í einni ferð í vinnuna.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.