Erlent

Rotta lokaði eldhúsinu á D'Anglaterre í sólarhring

Matvælaeftirlit Kaupmannahafnar lokaði eldhúsinu á fimm stjörnu hótelinu D-Angleterre, sem nú er í eigu Íslendinga, eftir að skolprotta sást þar á hlaupum í gærmorgun.

Meindýraeyðir var strax kallaður til og sá að niðurfall í gólfinu á eldhúsinu stóð opið og þannig að rottan átti greiðan aðgang að sælkerakrásum hótelsins. Samkvæmt reglum á að vera rist yfir opinu en einhver hafði fjarlægt hana.

Leitað var gaumgæfilega að öðrum rottum í eldhúsinu en engar fundust. Leyft var að opna eldhúsið aftur nú í morgun en þá hafði það verið lokað í tæpan sólarhring.

Á meðan var matur fyrir gesti eldaður í öðru eldhúsi á vegum hótelsins en þá þurfti að bera hann í gegnum móttöku hótelsins og inn í matsalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×