Innlent

Búið að komast fyrir eldinn í tuninum

MYND/Lillý
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur að mestu náð að ráða niðurlögum eldsins sem kom upp á annarri hæð í tengibyggingu við turninn í Kópavogi á tíunda tímanum í kvöld.

Töluverðan reyk lagði frá byggingunni þegar slökkvilið kom á vettvang og tók nokkrun tíma að finna eldsupptökin. Þau reyndust í rými sem verið var að innrétta á annarri hæð tengibyggingarinnar og var aðeins um hálftími liðinn frá því að síðasti maður fór úr vinnu í rýminu þar til tilkynnt var um eldinn.

Að sögn Höskuldar Einarssonar, deildarstjóra hjá slökkviliðinu, var eldveggur á milli tengibyggingarinnar og turnsins sjálfs og því ekki mikil hætta á ferðum. Hins vegar hefði turninn verið rýmdur af varúðarástæðum. Fólk var bæði á 19. hæð hússins, þar sem er að finna veitingastað, og á þeirri 15. þar sem líkamsræktarstöðin World Class er til húsa. Að sögn Höskuldar voru þó fáir á hvorum stað. Mannskapurinn í veitingahúsinu hafi verið um tvær og hálfa mínútu á lið niður. „Það er mjög gott og ágætt að prófa það." sagði Höskuldur.

Tilkynning um eldinn barst nánast á slaginu hálftíu og var allt tiltækt slökkvilið á öllum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu kallað út. Fyrstu bílar úr Hafnarfirði voru komnir á vettvang um tveimur til þremur mínútum eftir útkallið og gengu aðgerðir vel á vettvangi. Höskuldur taldi að á bilinu 30-40 menn hefðu verið á vegum slökkviliðsins á svæðinu.

Sem fyrr segir hefur eldurinn að mestu verið slökktur en nokkur reykur er enn í rýminu og því þarf að reykræsta. Ekki liggur fyrir hver eldsupptök voru.

Þær upplýsingar fengust hjá lögreglu að tveir lögreglubílar hefðu verið í grenndinni þegar tilkynningin barst og voru þeir fyrstir á vettvang. Munu þeir hafa tekið þátt í að rýma turninn með því að hlaupa upp hann.

Talsvert var um umferð við turninn í kvöld og var þar að líkindum forvitið fólk á ferð að sögn fréttamanns Stöðvar 2 sem var á vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×