Innlent

Segir þjónustutryggingu ýta undir kynbundinn launamun

Fulltrúi Vinstri - grænna í leikskólaráði gefur lítið fyri hugmyndir meirihlutans um þjónustutryggingu fyrir þá foreldra sem bíða eftir að fá inni á leikskóla fyrir börnin sín. Hún segir ljóst að aðgerðirnar ýti undir kynbundinn launamun og segir ekkert eftirlit verða með hvernig greiðslum frá borginni verði varið.

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, kynntu í dag aðgerðaráætlun undir yfirskriftinni Borgarbörn. Samkvæmt áætlunninni stendur til á næstu fjórum árum að fjölga leikskólaplássum með því að byggja nýja leikskóla og bæta nýjum deildum við rótgróna leikskóla.

Enn fremur á að semja við dagforeldra og koma á fót svokallaðri þjónustutrygggingu. Það er greiðsla sem verður jafnhá þeirri sem Reykjavíkurborg greiðir með barni sem er í vistun hjá dagforeldri. Munu foreldrar sem þiggja þjónustutryggingu en ráðstafa henni ekki til þriðja aðila skipta á milli sín greiðslutímabilinu á sambærilegan hátt og lög um fæðingarorlof gera ráð fyrir.

Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri - grænna í leikskólaráði, segir ljóst að ábyrgðin verið meiri hjá konum í þessum efnum þar sem konur hafi almennt lægri laun en karlar. Þettta ýti því undir kynbundinn launamun. „Þetta hvetur heldur ekki láglaunakonur til þess að fara út að vinna því þær fá jafnmikið í atvinnuleysisbætur og þjónustutryggingu samanlagt og þær fengju fyrri lægst launuðu störfin hjá borginni til að mynda. Þetta er því atvinnuletjandi," segir Sóley. „Svo er engin leið að fylgjast með því hvernig foreldrar deila ábyrgðinni, það er ekkert eftirlit með því," segir Sóley enn fremur.

Um uppbygginguna á leikskólum á næstu árum segir Sóley að þar gefi meirihlutinn sér of mikið. Borgin hyggist byggja á fimmta hundrað leikskólapláss, eða hundrað meira en mannfjöldaspár gera ráð fyrir. Þá sé gert ráð fyrir að einkaaðilar byggi upp 258 pláss. „Það hefur hins vegar engin stefnumótun farið fram um þá uppbyggingu og ekki búið að semja við neinn um það," segir Sóley.

Þá geri meirihlutinn ráð fyrir að fæðingarorlof lengist í eitt ár árið 2010 þannig að börn yngri en 12 mánaða detti út af listum borgarinnar. „Það er lítið sem ekkert sem bendir þess að fæðingarorlofið verði svo langt eftir tvö ár," segir Sóley.

Þá gagnrýnir hún hversu lítinn tíma minnihlutinn fékk til að kynna sér málið og hversu stutt var til umfjöllunar í fagráðinu sjálfu í dag. „Við fengum gögn um málið klukkan hálfsex í gær og svo var fundur klukkan hálftvö í dag. Meirihlutinn var ekki tilbúinn að fresta málinu og lítill tími var gefinn til umræðu því fulltrúi meirihlutans þurfi að flýta sér á blaðamannafund að kynna hugmyndirnar," segir Sóley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×