Innlent

Sjö alvarleg umferðarslys á Reykjanesbraut á árinu

Eftir alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbrautinni í morgun var tilkynnt að ákveðið hefði verið að aðskilja akgreinar á Reykjanesbrautinni þar sem enn á eftir að tvöfalda. Á þessum kafla hafa orðið sjö umferðarslys árinu.

Slysið varð um klukkan hálfsjö í morgun en þá skullu tveir fólksbílar saman við Vogaafleggjarann á Reykjanesbrautinni. Fimm voru í öðrum bílnum en í hinum var ökumaðurinn einn á ferð. Allir sex voru fluttir á slysadeild en þrír liggja alvarlega slasaðir á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu eru orsakir slyssins ekki ljósar en mikil hálka var á veginum.

Framkvæmdir hafa staðið yfir á kaflanum þar sem slysið varð en þar á enn eftir að tvöfalda brautina. Fjölmörg slys hafa orðið á svæðinu á meðan á framkvæmdum hefur staðið. Fyrirtækið Jarðvélar sagði sig frá verkefninu í desember síðastliðnum og hafa sjö slys orðið á og við Vogaafleggjarann frá áramótum. Frá því janúar 2007 hafa orðið 24 slys á svæðinu auk fjölmargra óhappa.

Í tilkynningu sem Vegagerðin sendi frá sér í dag segir að ákveðið hafi verið að aðskilja akstursstefnur á Reykjanesbrautinni þar sem enn á eftir að tvöfalda. Verða rauð og hvít gátskilti sett þar upp á allra næstu dögum. Vegagerðin segist hafa unnið að því að bæta merkingar á svæðinu frá því fyrirtækið Jarðvélar sagði sig frá verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×