Innlent

Ekki sama umhverfisverndarsinnar og vörubílstjórar

Enginn vörubílstjóri hefur verið sektaður, handtekinn eða kærður vegna mótmælanna undanfarna tólf daga. Mál þeirra eru í rannsókn. Lögreglan var öllu skjótari til þegar umhverfisverndarsinnar óku einum bíl og gengu eftir Snorrabraut síðastliðið sumar. Þá voru fimm handteknir.

Tólf dagar eru síðan vörubílstjórar hófu mótmæli sín og hafa síðan ítrekað valdið miklum umferðartöfum á helstu stofnæðum borgarinnar. Framan af fór að mestu vel á með lögreglu og mótmælendum. Enginn hefur verið sektaður, handtekinn eða kærður vegna mótmælanna en lögreglan hefur safnað upplýsingum um þá sem hafa gerst brotlegir og er að rannsaka málin.

Hópur skrautklæddra einstaklinga í Saving Iceland fór í mótmælagöngu frá Perlunni síðastliðið sumar og fékk þá heldur óblíðari móttökur. Lögreglan skarst í leikinn á Snorrabraut. Hún reyndi að stöðva eina bílinn í göngunni og braut rúðu í bílnum því ökumaðurinn neitaði að ræða við lögreglu. Síðan voru fimm handteknir og kærðir. Ekki dugði minna en sex lögreglumenn til að handtaka einn þeirra með nokkrum fyrirgangi.

Skýringar á viðbrögðum lögreglu þá voru að Snorrabrautin væri ein af stofnæðum borgarinnar sem þyrfti að halda opinni til að tryggja öryggi almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×