Innlent

Engin tengsl á milli Toppverktaka og eiganda Jarðvéla

Verktakafyrirtækið Toppverktakar, sem átti lægsta boð í framkvæmdir á Reykjanesbrautinni, tengist ekki á neinn hátt fyrirtækinu Jarðvélum sem sagði sig frá verkinu fyrir jól og fór á hausinn stuttu seinna.

Í dag hafa gengið ljósum logum sögur þess efnis að stjórnarformaður Jarðvéla, Vilhjálmur Kristinn Eyjólfsson, tengist Toppverktökum. Þetta segir Ágúst Alfreð Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Toppverktaka, vera af og frá. „Ég hef aldrei séð þessa menn sem áttu Jarðvélar og veit ekkert hverjir þeir eru. Það eru engin tengls þarna á milli." segir Ágúst í samtali við Vísi.

Líklegast hafa þessar sögusagnir farið á kreik vegna þess að Vilhjálmur er eigandi fyrirtækis sem heitir Toppurinn. Því hafa menn lagt saman tvo og tvo og fengið út að hann hlyti að standa á bak við fyrirtæki sem heitir Topp verktakar. „Ég áttaði mig ekkert á þessu þegar ég ákvað nafnið," segir Ágúst og bætir við að líklegast verði hann að finna nýtt nafn á þetta unga verktakafyrirtæki.

Ágúst segir Toppverktaka vera fulltrúa litháísks verktakafyrirtækis, Adakris. „Þeir eru aðalverktakinn og við erum fulltrúar þeirra hér á landi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×