Erlent

Al Fayed gefst upp á að sanna samsæriskenningu sína

Mohammed Al Fayed hinn litríki eigandi Harrods í London hefur endanlega gefist upp við að sanna að samsæri hafi legið að baki láti Dodi sonar síns og Díönu prinsessu í París fyrir áratug síðan

Al Fayed segir í samtali við sjónvarpsstöðina ITV að hann sé búinn að fá nóg. Nú sé það í hendi Guðs að hefna fyrir sig. Sjálfur sé hann hættur við að rannsaka málið. Al Fayed bætir því jafnframt við að hann sé sannfærður um að prinsarnir tveir, synir Díönu, séu honum þakklátir fyrir að hafa reynt að draga sannleikann fram í sviðsljósið.

Al Fayed hefur eytt milljónum króna í lögfræðinga og einkaspæjara undanfarin áratug við að sanna samsæriskenningu sína. Hún gekk í grófum dráttum út á að Dodi og Díana hefðu um það bil verið að trúlofast og að Díana hefði verið ólétt með barni Dodi. Þetta hefði hin ráðandi stétt í Bretlandi ekki getað þolað og því ákveðið að koma parinu fyrir kattarnef.

Inn í málið blandaði Al Fayed svo bresku leyniþjónustunni MI5 og MI6, Filipi prins fyrrum tengdaföður Díönu, frönskum yfirvöldum og þeim ljósmyndurum sem fylgdu á eftir parinu nóttina sem þau létust í bílslysi.

Rannsóknarnefndin um slysið sem lauk störfum nýlega fann ekkert sem studdi við samsæriskenningu Al Fayed.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×