Innlent

Styttist í mótmæli á Austurvelli - bílstjórar safnast saman

Bílarnir lögðu af stað frá Sundahöfn nú á fjórða tímanum.
Bílarnir lögðu af stað frá Sundahöfn nú á fjórða tímanum. MYND/Einar

Mótmæli sem boðuð voru á Austurvelli í dag vegna hárra álaga á eldsneytisverð eru um það bil að hefjast.

Hópur bílstjóra hefur safnast saman í Klettagörðum og hyggjast þeir aka saman í halarófu niður á Austurvöll þar sem búist er við að fjöldi manns komi saman til þess að krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda í eldsneytismálum. Eftir því sem skipuleggendur segja er mótmælunum beint gegn Alþingi og olíufélögunum.

Við þetta má bæta að stjórn Hópferðamiðstöðvarinnar TREX segir atvinnuöryggi og rekstrargrundvöll atvinnugreina, heimila og einstaklinga sem byggja afkoma sína á seldum akstri í verulegri hættu og styður því aðgerðir vörubílstjóra. Þetta kemur fram í netpósti sem Hópferðamiðstöðin hefur sent forsætis-, fjármála-, viðskipta-, iðnaðar- og samgönguráðherrum.

Þar er lýst yfir stuðningi við aðgerðir vörubílstjóra sem hafa að undanförnu teppt umferð á fjölförnum stöðum í borginni. Þar er jafnframt tekið undir kröfur um aðgerðir af hálfu hins opinbera vegna mikilla hækkana eldsneytisverðs, hvíldartímareglna og fleiri álaga. Lýsir Hópferðamiðstöðin yfir vonbrigðum með aðgerðaleysi stjórnvalda og að erfitt skuli vera að ná sambandi við þau til að ræða þessi mál öðruvísi en með aðgerðum sem skapa óþægindi og kostnað fyrir almenning og fyrirtæki í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×