Íslenski boltinn

Jóhann samdi við Fylki til þriggja ára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Þórhallsson, leikmaður KR, í leik gegn Fylki í fyrra.
Jóhann Þórhallsson, leikmaður KR, í leik gegn Fylki í fyrra. Mynd/Daníel

Jóhann Þórhallsson hefur skrifað undir þriggja ára samning við Landsbankadeildarlið Fylkis. „Mjög góður kostur," segir Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis.

Fylkir keypti Jóhann frá KR en þangað fór hann fyrir ári síðan frá Grindavík. Hann skoraði aðeins eitt mark með KR í sumar en hann kom við sögu í fjórtán deildarleikjum.

Jóhann er 28 ára gamall og á alls að baki 77 leiki í efstu deild og hefur hann skorað í þeim 24 mörk.

„Mér líst mjög vel á að fá Jóhann til Fylkis," sagði Leifur. „Þetta er öflugur strákur sem státar af fínum árangri. Ég held að hann hafi skorað 67 mörk í 122 deildarleikjum á ferlinum og eru ekki margir framherjar með svo góðan árangur."

„Hann vill líka fá að sýna sig á sanna og fær hann nú tækifæri til þess."

Fylkir missti tvo sóknarmenn í haust, þá Christian Christiansen og Albert Brynjar Ingason auk þess sem að Páll Einarsson, sem spilaði ýmist á miðju eða í sókn, lagði skóna á hilluna.

Fyrr í vetur fengu þeir Allan Dyring frá FH og hafa nú fengið Jóhann. „Það var nauðsynlegt að bæta meira í framlínuna. Þar að auki eru Allan og Jóhann mismunandi sóknarmenn og ég held að Jóhann sé þannig týpa sem falli vel að Allan," sagði Leifur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×