Fótbolti

Norður- og Suður-Kórea mætast í Kína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Norður- og Suður-Kórea áttust síðast við í Austur-Asíu meistarakeppninni í síðasta mánuði.
Norður- og Suður-Kórea áttust síðast við í Austur-Asíu meistarakeppninni í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images

Ákveðið hefur verið að leikur Norður- og Suður-Kóreu síðar í mánuðinu fari fram í Kína undir eftirliti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA.

Leikurinn er liður í undankeppni HM 2010 en átti að fara fram í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu. Knattspyrnusamband Suður-Kóreu bað FIFA um að skerast í leikinn eftir að kollegar þeirra í norðri neituðu að spila þjóðsöng Suður-Kóreu fyrir leikinn og flagga fána landsins.

FIFA stakk upp á því fyrr í vikunni að leikurinn færi fram í Kína og féllust báðir aðilar á þá lausn. Leikurinn fer fram í Sjanghæ þann 26. mars næstkomandi þar sem fánar beggja þjóða verða við hún og þjóðsöngvar bæði Norður- og Suður-Kóreu fá að hljóma fyrir leikinn.

Kóreustríðinu lauk árið 1953 með vopnahlésyfirlýsingu en ekkert friðarsamkomulag hefur verið gefið út. Stríðinu er því enn ekki lokið með formlegum hætti. Samskipti þjóðanna hafa þó batnað undanfarin ár eftir að leiðtogar þeirra hittust fyrst árið 2000.

Norður- og Suður-Kórea eru saman í riðli í undankeppni HM 2010 ásamt Túrkmenistan og Jórdaníu. Suður-Kórea vann Túrkmenistan, 4-0, í fyrstu umferð keppninnar og Norður-Kórea vann sigur á Jórdaníu, 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×