Fótbolti

Duisburg á eftir Þóru

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þóra Helgadóttir með Ásthildi, systur sinni.
Þóra Helgadóttir með Ásthildi, systur sinni. Mynd/Hörður

Þýska úrvalsdeildarliðið Duisburg er á höttunum eftir Þóru Helgadóttur sem leikur með Anderlecht í Belgíu.

Þóra sagði í samtali við Vísi að Duisburg hefði óskað eftir því að fá hana strax en að öðrum kosti að tímabilinu loknu.

„Ég er með samning við Anderlecht út þetta tímabil sem þýðir að félagið þarf að gefa Duisburg leyfi til þess að ræða við mig. En eins og staðan er nú þá mun ég klára tímabilið hjá Anderlecht."

Spurð hvort að hún hefði áhuga á að fara til Duisburg segir hún að það væri gott skef fyrir knattspyrnuferil sinn.

„En það þarf að huga að mörgu öðru eins og til að mynda vinnu minni hér í Belgíu. Það er því ekki gott að segja eins og er."

Þóra hefur átt í viðræðum við Anderlecht um nýjan samning og hefur nú þegar sett fram sínar kröfur.

„Boltinn er hjá þeim eins og er. En ef ég verð áfram er líklegt að ég æfi eitthvað með karlaliðinu sem væri mjög spennandi fyrir mig. Ég gerði þetta alltaf heima og þær æfingar gáfu mér mjög mikið. Ég hélt reyndar að þetta væri ekki hægt hjá svo stóru félagi en það voru reyndar þeir sem stungu upp á þessu," sagði Þóra. „En þessi mál eru í skoðun eins og er."

Þóra ákvað um daginn að gefa ekki lengur kost á sér í íslenska landsliðið en hún segir reyndar að það hafi verið tímabundin ákvörðun.

„Þetta var gríðarlega erfið ákvörðun. Ég hef spilað með landsliðinu í næstum tíu ár en það voru persónuleg mál sem réðu mestu í þessum efnum."

Hún segir einnig að það hafi ráðið miklu hversu mikill tími fer í landsliðið. „Það fara 30 vinnudagar á ári í landsliðið og það er allt sumarfríið hjá mér. Þar sem ég bý erlendis og fjölskyldan mín er heima setur það mig í erfiða stöðu."

Þóra einbeiti sér því að félagsliði sínu sem hefur gengið vel í belgísku deildinni. „Tímabilið hefur gengið vonum framar. Við erum með ungt og mikið breytt lið frá síðustu leiktíð og höfum því komið á óvart. Sem stendur erum við í öðru sæti deildarinnar en verðum vonandi komin á toppinn þegar tímabilinu lýkur í maí."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×