Innlent

Borgarstjóri frestar ferð til New Ham

Breki Logason skrifar
Ólafur F. Magnússon
Ólafur F. Magnússon

Borgarstjóra Reykjavíkur var boðið í opinbera heimsókn til New Ham á Englandi fyrir skömmu. Var ferðin áætluð þann 24. janúar síðast liðinn en hefur verið frestað fram í apríl.

Að sögn ritara borgarstjóra kom borgarstjóri New Ham hingað í heimsókn síðasta sumar og átti að endurgjalda þá ferð með því að bjóða borgarstjóra Reykvíkinga til Englands.

Það var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, sem tók á móti New Ham fólkinu á sínum tíma en Dagur B. Eggertsson mun hafa frestað ferðinni.

Dagsetningin hentaði illa hér og var vel tekið í að fresta ferðinni fram í apríl. „Það var Dagur sem gekk frá því," segir ritarinn.

Heimildir Vísis herma að meiningin hafi verið að fara á leik hjá West Ham á Upton Park en dagsetningin hafi einnig hentað illa til þess. Enginn leikur hafi verið á leikvangnum í kringum 24. janúar.

Það er því spurning hvort Ólafur F. hitti á West Ham leik í apríl. En hann hefur meðal annars talað um hæfileika sína á knattspyrnuvellinum á árum áður þegar hann lék með Valsmönnum.

Annars er það að frétta úr ráðhúsinu að Ólafur F. hefur ekki enn ráðið sér aðstoðarmann en það er verið að vinna í því hörðum höndum. Sú ráðning er algjörlega á hendi borgarstjóra enda mun viðkomandi vera hans hægri hönd.

Nokkur nöfn hafa heyrst sem væntanlegir kandídatar í starfið og hefur nafn fyrrum þingmanns Frjálslynda flokksins, Sigurjóns Þórðarsonar, borið þar hæst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×