Innlent

Töluverð röskun á innanlandsflugi vegna veðurofsa

Töluverð röskun hefur verið á innanlandsflugi í dag vegna veðurofsans í gær. Þeir sem áttu bókað flug frá Akureyri í morgun komast ekki af stað fyrr en klukkan fjögur í dag.

Innanlandsflug hófst að nýju í morgun en öllu flugi var aflýst í gær vegna veðurs. Það var mikið um að vera á Flugstöðinni í Reykjavík nú í morgun en yfir 1.400 manns áttu bókað far í gær og annar eins fjöldi í dag. Farnar voru tvær ferði til Hornafjarðar í morgun á vegum Flugfélagsins Ernis og ein á Sauðárkrók og Bíldudal.

Þrjár vélar Flugfélags Íslands fóru til Egilsstaða rétt fyrir hádegi og ein til Ísafjarðar. Mestu tafirnar hafa orðið á flugi milli Akureyrar og Reykjavíkur en rúmlega sjö hundruð manns eiga bókað far á þeirri flugleið.

Fimm ferðir voru farnar til Akureyrar í morgun en þangað verða farnar um tíu ferðir til viðbótar í dag. Þeir sem áttu bókað flug til og frá Akureyri í morgun komast væntanleg ekki af stað fyrr en um klukkan fjögur í dag samkvæmt upplýsingum frá Flugfélagi Íslands. Þá ætti innanlandsflug fyrst að vera komið í eðlilegt horf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×