Lífið

Hildur Dungal á von á sumarbarni

Hildur Dungal
Hildur Dungal MYND/Gunnar Andrésson
Hildur Dungal forstjóri Útlendingastofnunar á von á sínu þriðja barni í júní. „Þú ert að tala við vana konu" sagði Hildur hlæjandi þegar Vísir náði tali af henni. Hún og eiginmaður hennar, Halldór Þorkelsson, eiga fyrir níu ára son og sex ára dóttur.

Hildur er ekki á því að stór fjölskylda þurfi að koma í veg fyrir starfsframa. „Á maður ekki að geta gert bæði?" spyr Hildur og bætir við að gott fjölskyldulíf geti gefið fólki aukinn kraft í starfi. „Ég held að mörgu leiti að gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs geri það að verkum að manni gangi vel á báðum stöðum. Maður getur verið í vinnunni endalaust en það þýðir ekki að maður sé að skila frábærum árangri."

„Þetta er spurning um áherslur", segir Hildur, sem finnst konum oft sérstaklega hætt við því að skapa sér samviskubit og áhyggjur yfir því að standa sig ekki hundrað prósent á öllum vígstöðum.

Litla barnið er væntanlegt í heiminn 21. júní, á lengsta degi ársins. Hildur veit ekki enn af hvoru kyni það er, en reiknar með að vilja vita það þegar að býðst. Þegar hún gekk með dótturina fékk hún að vita kynið og segist í kjölfarið hafa upplifað meðgönguna öðruvísi. „Maður upplifir barnið sem meiri einstakling" segir Hildur.

Eldri börnin tvö hlakka mikið til að eignast nýtt systkyni. „Ég er með tvo viljuga og áhugasama aðstoðarmenn tilbúna", segir Hildur, og bætir við að börnin nánast vefji hana inn í bómull. „Þetta lofar mjög góðu" segir Hildur og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.