Innlent

Áhersla lögð á að vinna gegn heimilisofbeldi

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Unnið er að skipulagsbreytingum hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með það að leiðarljósi að leggja áherslu á rannsóknir heimilisofbeldismála.

,,Ég geri ráð fyrir því að kynferðisbrotamálum og heimilisofbeldismálum verði sinnt í einni og sömu deildinni til þess að tryggja að þessi mikilvægu mál fái þann forgang og athygli sem nauðsynlegt er," sagði Stefán Eiríksson lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins í samtali við Vísi.

Réttmæt gagnrýni

Lögreglan og raunar réttarkerfið í heild hefur á liðnum árum verið gagnrýnt fyrir frammistöðu sína vegna meðferðar kynferðisbrotamála. Þessi gagnrýni hefur að mörgu leyti verið réttmæt, að mati Stefáns.

Við stofnun embættisins var á ákveðið að setja laggirnar sérstaka rannsóknardeild sem hefði það hlutverk að rannsaka kynferðisbrot. Stefán telur tekist hafi að auka skilvirkni rannsókna slíkra mála og auka tiltrú almennings og þolenda kynferðisbrota á getu lögreglu í málaflokknum.

Auka sérþekkingu innan lögreglunnar

Markmið með skipulagsbreytingunum núna að koma í veg fyrir áframhaldandi heimilisofbeldi. ,,Við ætlum að gera það sama og við gerðum með kynferðisbrotamál og byggja upp sérþekkingu innan lögreglunnar í heimilisofbeldismálum sem er nauðsynleg til þess að auka gæði og skilvirkni við rannsókn þessara mála," sagði Stefán.

Til stendur að kynna Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, tillögurnar um næstu áramót og að breytingar taki þegar í gildi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×