Íslenski boltinn

Markmannsþjálfari Hauka leikur gegn þeim í bikarnum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gunnleifur, fyrirliði HK og markmannsþjálfari Hauka.
Gunnleifur, fyrirliði HK og markmannsþjálfari Hauka.

HK-ingar munu mæta Haukum á gervigrasvellinum á Ásvöllum í sextán liða úrslitum VISA-bikarsins en dregið var í hádeginu í dag. Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður og fyrirliði HK, er markmannsþjálfari Hauka.

Gunnleifur var meðal annars í liðsstjórn Hauka gegn ÍBV í 1. deildinni í gær og fagnaði sigri Hauka vel. Gunnleifur var léttur í bragði þegar Vísir ræddi við hann eftir dráttinn.

„Þetta er allavega ekki óskadrátturinn," sagði Gunnleifur. „Ég er markmannsþjálfari Hauka og hef verið á flestum leikjum og æfingum hjá þeim. Það var bara hálf vandræðalegt þegar þetta kom upp, ég var að tala um það um daginn að eiginlega allt nema þetta mætti koma upp."

„Ég mun samt klárlega rukka Hauka um tvo vinnutíma meðan leikurinn er í gangi. Ég verð líka að fylgjast með markverðinum þeirra," sagði Gunnleifur sem neitar því ekki að það verði sérstök tilfinning að leika gegn Haukum. „Þetta er samt bara fótboltaleikur og við ætlum okkur bara sigur. Þetta verður fínt þegar maður er kominn út á völlinn."

HK mætir KR í kvöld á Kópavogsvelli í Landsbankadeildinni. „KR-ingar eru á fljúgandi siglingu og náðu að slátra KB 1-0 bikarnum. Nei en án alls gríns þá mæta þeir pottþétt öflugir til leiks og við verðum að mæta þeim."

„Við erum í neðsta sæti og það er ekki hægt að horfa framhjá því. Við verðum að fara að krækja í stig ef ekki á illa að fara. Við erum vel undirbúnir og leggjum ekkert árar í bát," sagði Gunnleifur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×