Innlent

Talið líklegt að Sigríður Björk sæki um á Suðurnesjum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir aðstoðarríkislögreglustjóri vill hvorki játa því né neita að hún muni sækja um embætti Lögreglustjórans á Suðurnesjum þegar Jóhann R. Benediktsson lætur af störfum. „Það hefur engin ákvörðun verið tekin um slíkt," sagði Sigríður Björk þegar Vísir náði af henni tali. Orðrómur hefur verið um að hún myndi sækja um, enda hefur hún notið mikils trausts hjá dómsmálaráðherra í störfum sínum hingað til.

Morgunblaðið greindi frá því í síðustu viku að Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri Suðurnesja, hefði fengið bréf frá dómsmálaráðuneytinu þann 1. september síðastliðinn. Í bréfinu var honum greint frá því að starf hans yrði auglýst laust til umsóknar. Þetta var gert þrátt fyrir að Jóhann hefði ekki óskað undan lausn frá embætti. Jóhann mun svo funda með starfsfólki sínu í dag, þar sem gert er ráð fyrir að hann tilkynni um starfslok sín.

Sigríður Björk var skipuð aðstoðarríkislögreglustjóri í desember 2006, en áður var hún sýslumaður á Ísafirði. Hún er búsett í Reykjanesbæ og gift Skúla S. Ólafssyni, sóknarpresti í Keflavíkurprestakalli.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×