Innlent

Seinka jólaopnun í verslunarmiðstöðvum vegna kreppu

Stóru verslunarmiðstöðvarnar hafa ákveðið að seinka jólaopnun í desember um nokkra daga vegna kreppunnar. Kaupmenn eru þó bjartsýnir að jólaverslun verði með besta móti í ár.

Minnkandi kaupmáttargeta almennings samfara hruni krónunnar og vaxandi verðbólgu kann að setja sitt mark á innlenda verslun. Kaupmenn hafa nú ákveðið að bregðast við þessum aðstæðum með því að seinka hefðbundinni jólaopnun í desember um nokkra daga.

Henning Freyr Henningsson, framkvæmdastjóri Smáralindar, segir að menn hafi talið ráðlegt eftir samráð við marga verslunareigendur að fara þá leið til að draga úr kostnaði. „Langur opnunartími hefur alltaf í för með sér mikinn launakostnað og annað slíkt þannig að við ákváðum að fara þessa leið," segir Henning.

Í sama streng tekur framkvæmdastjóri Kringlunnar, Sigurjón Örn Þórsson. Þetta sé hluti af því að hagræða í ljósi aðstæðna. Kaupmenn í Kringlunni verði fyrir barðinu á ástandinu eins og aðrir „en það má þó ekki gleyma því að aðsókn í húsinu er með mjög svipuðum hætti og hefur verið áður þannig að við erum ekki að vera fyrir barðinu á því að það koma færri gestir í húsið," segir Sigurjón.

Veiking krónunnar kann þó að hafa jákvæð áhrif á innlenda verslun að mati kaupmanna. „Það hefur farið mikil jólaverslun fram erlendis undanfarin ár og ég hef trú á því að hún skili sér inn í landið því Íslendingar halda jú alltaf jólin og ég geri ráð fyrir því að við gerum það áfram," segir Sigurjón.

Henning segir menn mjög bjartsýna á jólaverslun þrátt fyrir ástandið. „Það eru ýmiss teikn á lofti. Dagurinn í dag er að vísu ekki auðveldur en ef maður horfir nokkrar vikur fram í tímann og svona til næstu missera þá sjáum við fram á það að Íslendingar muni versla heima fyrir jólin og það er bara hið besta mál," segir Henning.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×