Innlent

Fullyrðir að eigur Landsbankans dugi fyrir Icesave skuldbindingum

Björgólfur Guðmundsson og Sigurjón Þ. Árnason.
Björgólfur Guðmundsson og Sigurjón Þ. Árnason.

Í lok september voru eignir Landsbankans tvöfalt meiri en skuldbindingar Icesave námu. Þetta sagði Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans, í samtali við Kastljósið í kvöld. Hann segir að samkvæmt sínum upplýsingum eigi eignir Icesave enn að duga fyrir skuldbindingunum þó að eignirnar rýrni. Icesave reikningarnir eigi því ekki að þurfa að lenda á íslenskum skattgreiðendum.

Björgólfur fullyrti jafnframt að Landsbankinn hafi ekki verið orðinn gjaldþrota þegar að skilanefnd tók bankann yfir heldur hafi hann verið kominn í greiðsluþrot vegna þess að bankinn hafi ekki fengið gjaldeyri frá Seðlabankanum til að greiða af erlendum skuldum.

Þá sagði Björgólfur að ekki væri hægt að kenna Icesave um milliríkjadeiluna við Breta og Hollendinga. Deilan væri tilkomin vegna þess að þegar neyðarlögin voru sett hafi íslensk stjórnvöld sagt að þeir ætluðu að mismuna innistæðueigendum eftir þjóðerni. Aðrar reglur myndu gilda um innistæður Íslendinga en innistæður annarra. Þennan mismun hafi bresk stjórnvöld ekki skilið.

Loks sagði Björgólfur að hann hefði lagt áherslu á að fjárfesta í eignum á Íslandi. Þær eignir hans, svo sem Landsbankinn, Eimskip og Icelandic væru farnar. Hann hefði þó ekki áhyggjur af eigin stöðu heldur stöðu annarra sem hefðu tapað á falli þessara fyrirtækja.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×