Erlent

Obama á móti arftakanum

Barack Obama, verðandi Bandaríkjaforseti, hvetur demókrata á Bandaríkjaþingi til að hafna arftaka sínum sem ríkisstjórinn í Illinois, hefur valið.

Ríkisstjórinn, Rod Blagojevich, var handtekinn fyrir skömmu og ákærður fyrir svik, meðal annars áform um að selja þingsæti Obama hæstbjóðanda - en ríkisstjórar útnefna arftaka öldungadeildarþingmanna sem hverfa frá á miðju kjörtímabili.

Háværar kröfur hafa verið um að Blagojevich segi af sér en það hefur hann ekki viljað gera. Í gær útnefndi hann Roland Burris, fyrrverandi dómsmálaráðherra í Illinois-ríki, sem arftaka Obama.

Burris, sem er sjötíu og eins árs, var fyrsti blökkumaðurinn sem kosinn var í opinbert embætti í Illinois þegar hann varð sigursæll í kosningum í embætti fjármálastjóra ríkisins 1978.

Hann bauð sig fram til öldungadeildar 1984 og sem ríkisstjóri Illinois 1994 en hafði ekki erindi sem erfiði.

Obama segir Burris góðan mann en demókratar í öldungadeild hafi sagt að þeir geti ekki samþykkt útnefningu ríkisstjóra sem liggur undir ásökunum um að hafa ætlað að selja þingsæti. Því segist Obama sammála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×