Íslenski boltinn

Fjalar líklega áfram hjá Fylki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fjalar Þorgeirsson, leikmaður Fylkis.
Fjalar Þorgeirsson, leikmaður Fylkis. Mynd/Valli
Fjalar Þorgeirsson staðfesti í samtali við Vísi að hann myndi líklega vera áfram í herbúðum Fylkis.

„Það er ekki búið að skrifa undir neitt enn sem komið er en það er líklegt, ég verð að segja það," sagði Fjalar. „Við höfum átt í viðræðum, bæði formlegum og óformlegum, síðan í tímabilinu lauk," bætti hann við.

Fjalar er einn margra leikmanna Fylkis sem eru samningslausir en eins og hjá flestum liðum í deildinni er mikil óvissa um framhaldið vegna efnahagsástandsins og því erfitt að semja við leikmenn til lengri tíma.

Fjalar vildi hins vegar ekki tjá sig um efnisleg atriði samningsins og hvort hann hefði þurft að taka á sig launalækkun. Hann sagði þó að nýi samningurinn væri gerður á öðrum forsendum en sá gamli.

Fjalar hefur leikið með Fylki undanfarin þrjú ár og leikið alla deildarleiki félagsins síðustu tvö tímabil. Hann kom til Fylkis frá Þrótti árið 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×