Erlent

Færðu Sirius Star lengra á haf út vegna hótana íslamista

MYND/AP
Sjóræningjar í Sómalíu hafa flutt olíuskipið Sirius Star lengra á haf út eftir að íslamistar hótuðu að beita vopnavaldi ef þeir slepptu því ekki.

Bardagasveitir íslamista eru þegar komnar til bæjarins Haradheere en Sirius Star var lagt þar við akkeri eftir sjóránið. Íslamistarnir vilja að skipinu verði skilað vegna þess að það er frá Sádi-Arabíu sem sé múslímaríki.

Þeir hafa raunar lýst andstöðu við öll sjórán en því er haldið fram að fram til þessa hafi einhverjir þeirra að minnsta kosti fengið sneið af kökunni þegar lausnargjald hefur verið greitt fyrir hertekin skip.

Upplausn ríkir í Sómalíu og þar er engin ríkisstjórn sem getur haldið uppi lögum og reglu. Vígasveitir vaða því uppi og fara um ruplandi og rænandi bæði til sjós og lands.

Ekki hafa borist fregnir af því að komið hafi til átaka milli íslamista og sjóræningja. Þeir síðarnefndu eru hins vegar sagðir hafa flutt Sirius Star lengra frá landi eftir að íslamistar hótuðu aðgerðum.

Þeir eru jafnframt sagðir hafa lækkað lausnargjaldskröfu sína úr 25 milljónum dollara niður í fimmtán milljónir. Skipið er 300 þúsund tonn og fullhlaðið olíu sem verið var að flytja til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×