Innlent

Bæjarstjóri vill yfirstjórn í höndum núverandi lögreglustjóra

Árni Sigfússon.
Árni Sigfússon.

Árni Sigfússon bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að það sé mikilvægast fyrir lögregluna, sveitarfélög á Suðurnesjum og íbúa þeirra að á Suðurnesjum sé sameinað embætti.

Þetta kemur fram í svarbréfi sem Árni sendi lögreglumönnum á Suðurnesjum og Vísir hefur undir höndum. „Gagnvart landamæraeftirliti og tollgæslu- hef ég sagt þá skoðun mína að það hljóti að vera skynsamlegast að eitt höfuð sé yfir því verkefni - í Leifsstöð," segir í bréfi Árna til lögreglunnar.

Árni segir að það sé persónulegt mat sitt að sé yfirstjórn skipt á tvö ráðuneyti þurfi að finna lausn á því með því að fela einum aðila yfirstjórn, sem yrði þá núverandi lögreglustjóri. Þá segir Árni að ef menn sjái tækifæri í því að skipta embættinu upp þurfi að koma fljótt fram hvaða tækifæri það séu sem um ræði. Ekki sé nóg að tala bara um „tækifærin" heldur þurfi að sýna hver þau séu og hvernig verði þá unnið með þau.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×