Innlent

Fær ekki bætur vegna tjóns af völdum reykeitrunar

Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm Héraðsdóms í máli manns á hendur Hampiðjunni vegna vinnuslyss.

Maðurinn fór fram á bætur frá Hampiðjunni vegna reykeitrunar sem hann hafði orðið fyrir í kjölfar eldsvoða á verkstæði Hampiðjunnar þar sem hann vann. Þar hafði neisti við logsuðu borist í þynni sem var á gólfi og eldur blossað upp. Maðurinn náði ásamt öðrum að slökkva eldinn en hlaut reykeitrun við störfin. Örorka mannsins hafði verið metin 35 prósent og miski 20 prósent.

Maðurinn fór fram á 13,5 milljónir króna í bætur og byggði kröfuna á því að eldsupptökin mætti rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna Hampiðjunnar. Hæstiréttur komst hins vegar að því að í rannsókn lögreglunnar hefði ekki komið fram hver eldsupptökin hefðu verið og því hefði ekki verið sannað að starfsmenn Hampiðjunnar hefðu sýnt af sér gáleysi við að hreinsa upp þynni sem notaður var til að þrífa málningu af gólfi verkstæðisins eða vanrækt að gæta þess hvort það hefði verið gert nægilega vel áður en logsuða hófst.

Þá hefði komið fram í framburði vitna að maðurinn hefði ekki fengið þau fyrirmæli að slökkva eldinn. Þar sem maðurinn hefði ekki sýnt fram á að Hampiðjan hefði með saknæmum hætti stofnað til þeirra aðstæðna sem tjón hans var rakið til var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Hampiðjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×