Innlent

Björgvin: Inngrip IMF gæti verið mjög gott

Björgvin G. Sigurðsson við Ráðherrabústaðinn nýverið.
Björgvin G. Sigurðsson við Ráðherrabústaðinn nýverið.

Efnahagsaðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) gæti verið góður kostur, að mati Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra.

Björgvin var gestur í þættunum Í bítið á Bylgjunni í morgun og þar var hann spurður um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að efnahagsþrengingum Íslendinga.

,,Væntanlega yrðu skilyrðin sem þeir myndu setja mikið sveigjanlegri og mýkri heldur en margir halda því við erum þrátt fyrir þau ósköp sem yfir okkur dynja núna ein af öflugustu þjóðum í heimi. Við erum með miklar og góðar undirstöður og erum náttúrulega iðnþróað og þróað land þannig að það getur vel verið að það verði mjög góður kostur fyrir alla. En það á eftir að leiða til lykta eins og forsætisráðherra sagði í gær," sagði Björgvin.

Á blaðamannafundi í gær sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að ekki væri búið að útiloka frekar en neitt annað að stjórnvöld leiti aðstoðar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er stödd hér á landi og hafa fulltrúar sjóðsins einkum veitt ráðamönnum landsins ráðgjöf. Fréttablaðið greinir frá því í morgun að rætt hefur verið um að sjóðurinn veiti efnahagsaðstoð.

Íslendingar voru meðal stofnaðila sjóðsins og hafa verið skuldlausir við hann allt frá 1987.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Björgvin hér.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×